Sagan

Upphaf Óðinsferða

Um miðjan september 2009 komum við hjónin, Maria Christie Pálsdóttir og Magni Árnason að skoða Höskuldsstaði. Okkur hafði lengi dreymt um að eignast jörð með uppbyggingu ferðaþjónustu í huga. Það var bjartur og fallegur sólardagur þegar við ókum Breiðdalsheiðina. Þaðan blasti dýrðarsjón við okkur, Breiðdalurinn. Þegar við ókum í hlaðið varð ég að biðja Magna um að hinkra andartak, því ég grét svo mikið af einskæri gleði og ánægju yfir að vera loksins búin að finna staðinn, HEIM. Síguninn ég var loksins lent, komin heim. Við fluttum heim á Höskuldsstaði 1. júní 2010. Þetta eru fyrstu og einu fasteignakaup mín um ævina og hér munum við eyða allri okkar ævi við að framleiða gleði og hamingju viðskiptavinum okkar til handa. Við munum rækta þæg og geðgóð hross í hestaferðirnar og frjálsar landnámshænur sem framleiða egg. Þá stefnum við að því að hafa um tíu kindur og tvo hrúta til að geta boðið uppá lambakjöt á diskinn minn.

Saga Höskuldsstaða:

Í Breiðdælu (1948) segir um landnám Höskuldsstaða. Í túninu á Höskuldsstöðum, rétt ofan við traðirnar fyrir framan bæinn, er hóll einn aflangur, er rís þar á sléttu lítilli. Þessi hóll var og er kallaður Höskuldarhóll. Á Höskuldur, sá er bæinn reisti, að vera heygður þar. Munnmæli segja að menn frá bænum hafi hafist handa við að grafa í Höskuldarhól. Vildu þeir vita hvað þar væri að finna. En þar sem þeir grafa í jötunmóð, verður þeim litið í átt að bænum og virtist hann standa í ljósum logum. Hentu þeir samstundis frá sér verkfærunum og hlupu heim að bænum. Þá var þar enginn eldur. Hefur ekki verið hróflað við hólnum síðan svo vitað sé.

Höskuldsstaðir eru gamalt býli og getið fyrst í kaupbréfi frá 1457.  Í þessu bréfi eru upplýsingar um mörk og  ítök jarðarinnar, en sumt þar orðið óljóst. (Sveitir og jarðir í Múlaþingi, 1976 bls: 332).

Líkur benda til að Höskuldsstaðasel hafi byggst sem hjáleiga frá höfuðbólinu Höskuldsstöðum um 1690. Bæði býlin voru talin góðar bújarðir og land áttu land um þveran dal. (Ferðafélag Íslands árbók 2002., bls 191).

Á Höskuldsstöðum bjó 1866-1887 Einar Gíslason hreppstjóri og um tíma alþingismaður. Í hans tíð eða 1874 var tekin þar upp póstafgreiðsla. Hélst hún til 1947. Ein af aðalleiðum Austurlandspósta var frá Höskuldsstöðum í Breiðdal yfir í Berufjörð um Berufjarðarskarð. Þessi póstleiðin var frá Eyjafirði, Möðruvöllum til Eskifjarðar og svo suður að Hólum í Austur-Skaftafellssýslu. Síðasta póstferðin á þessari leið var farin 17 júní 1931. Símstöð var á Höskuldsstöðum frá 1934 til 1942. (Sveitir og Jarðir í Múlaþingi, 1976 bls: 332-333). Sáu hjónin Einar Gunnlaugsson póstafgreiðslumaður og bóndi ásamt Margrét Jónsdóttir konu sinni (prestdóttir frá 1888-1924) um hana.

Eyðibýlið Árnastaðir eru í landi Höskuldsstaða um einn km upp af bænum, undir Tóartindum, ofan við Innri-Króarmela, skammt innan við gilið er bæjarlækurinn fellur í. Þar er svonefnd Hólamýri og eru tættur býlisins í henni neðanverðri. Þarna bjó einsetumaður, Árni að nafni, síðari hluta 18. Aldar. Tættur eru greinilegar og fjárhústættur mjög heillegar. Er líklegt að fjárhús hafi verið þar eftir að búsetu Árna lauk. Búsældarlegt er þarna undir Tóartindum en hinn almenni vegfarandi fer á mis við að sjá þetta, því ganga verður upp á Króarmelana. Það er þess virði, því þá opnast vítt land og fagurt. (Breiðdæla hin nýja I bls. 78-79)

Í bókinni Skriðuföll og snjóflóð segir frá snjóflóði sem féll á Höskuldsstaði, þann 16 febrúar 1894. Á þeim tíma var tvíbýli á jörðinni. Lenti það mest á bæ Einars, föður Stefáns prófessors, en bær hans var nær læk þeim, er flóðið kom úr. Á hinum bænum bjó Hóseas Björnsson frá 1886-1903. Þar komst nokkuð krap í fjósið svo að tók nautunum rúmlega í kvið. Upptök flóðsins voru í svokallaðri Hólamýri í fjallinu fyrir ofan núverandi þjóðveg og fyrir neðan Tó. Mýrin er allstór, með litlum halla niður að þröngu gili. Rennur lækurinn fáa faðma frá bænum. Manntjón varð ekki en hinsvegar fórst ein kálfur þegar fjósið fyllist upp að miðja súð af snjó og vatni.

Góðgerðarfélagið Eining var stofnað 4. nóvember 1911 Margrét var ein af stofnendum og fyrsti formaður. Markmið félagsins var að styrkja berklaveika sjúklinga, sem þurftu að dveljast á Vífilstöðum. Félagið hélt eina samkomu á hverju sumri, oftast seint í júni. (Breiðdæla 1948 bls. 160).

Fyrsta skemmtun Einingar var árið 1912 og haldin á Ásunnarstöðum á sléttum bala rétt fyrir neðan túnið. Var þar reist leiksvið og stórt tjald fyrir veitingar. Við það tækifæri var frumflutt leikritið „Vorgyðjan“ eftir Margréti. Persónur í leikritinu voru: Vorgyðjan, Vonin, Gleðin og Sorgin. Þótti leikritið gott (Breiðdæla, 1948 bls: 162).

Árið 1914 var Einingarsamkoma á Höskuldsstöðum og þá var leikið leikritið „Brandur“  eftir Geir Vídalín í stóru kúahlöðunni á hlaðinu (Breiðdæla 1948, bls: 162). Margrét var bókvís og áhugasöm um skáldskap, glaðlynd þrátt fyrir vanheilsu, en hún þjáðist af breklum. Hún samdi sjálf tvö leikrit sem sett voru upp innansveitar. Því miður hafa þau glatast í tímans rás.

Sá hörmulagi atburður gerðist 18 febrúar 1898 í ofsaveðri að Björn sonur Einars varð úti á heimatúninu á átjánda aldursári.   Talið var að fjárhúshurð, sem sviptist af járnum, hefði fokið á hann og skaðað hann.

Í túninu á Höskuldsstöðum er heimagrafreitur, byggður 1908. Þann grafreit gerðu þau hjónin Einar og Margrét (Breiðdæla 1948 bls 206 Sveitarlýsing). Eru þau bæði jarðsett og hvíla þar ásamt dóttur sinni, Aðalheiði, sem lést úr berklum á seytjánda aldursári 1908. Þar hvílir einnig sonur þeirra, Stefán, sem lést í Reykjavík 9. apríl 1972 sem og Margrét fyrri kona hans.

Brautryðjandinn frá Höskuldsstöðum

Stefáns Einarssonar (1897-1972) frá Höskuldsstöðum er minnst af hlýhug heima fyrir í Breiðdal þótt starfsvettvangur hans væri lengst af fjarri heimahögum. Á Breiðdalssetrinu á Breiðdalsvík er eitt herbergi í Gamla Kaupfélaginu tileinkað dr Stefáni Einarssyni. Eru þar til sýnis ýmsir munir ásamt yfirlitssýning á starfsævi hans.

Doktorsritgerðina skrifaði hann á Höskuldsstöðum á þýsku frá Óslóarháskóla árið 1927. Fjallar hún um hljóðfræði í íslensku máli og ber heitið Beiträge zur Phonetik der isländischen Sprache. Starfsævi sinni varði hann við John Hopkins háskólan í Baltimore, við enskudeildina, þar sem bókmenntir áttu meira upp á pallborðið en málvísindi.

Framan af  20 öldinni var hefðbundin búskapur á Höskuldsstöðum. Árið 1986 eftir að jörðin hafði verið rúmlega tvö ár í eyði, kaupa hjónin Marietta Maisen frá Sviss og Pétur Behrens frá Þýskalandi jörðina og hefja hrossarækt. Þau eru bæði menntaðir listamenn og vel þekkt sem slíkir. Eru hestamyndir Péturs frábærar. Þau störfuðu í 24 ár við list sína á Höskuldsstöðum ásamt hrossatamningum og þýðingum á ýmsum verkum, aðallega tengdum hestum og hestamennsku.